Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
31. janúar 2013

Tilboðum SVFR hafnað

Félagsfundur í Veiðifélagi Norðurár hafnaði í gærkvöldi með afgerandi hætti, 28 atkvæðum gegn fjórum, tveimur tilboðum Stangaveiðifélags Reykjavíkur í veiðirétt árinnar frá og með sumrinu 2014. Á dögunum voru opnuð tilboð í veiðiréttinn og átti Stangaveiðifélagið bæði gildu tilboðin, undir merkjum SVFR og SVFR ehf, upp á 76,5 og 83,5 milljónir króna. Félagið mun greiða 85 milljónir fyrir ána næsta sumar en það verður 67. sumarið sem það leigir veiðiréttinn.

Birna G. Konráðsdóttir, formaður veiðifélagsins, sagði eftir fundinn í gærkvöldi að hann hefði verið góður og málefnalegur og að eftir þessa afgerandi atkvæðagreiðslu hefði stjórnin afar gott bakland í þeirri vinnu sem nú tæki við, að ákveða framtíð veiðisvæðisins.

 

„Í rauninni ræddum við ekki næstu skref. Í haust var stjórn falið að vinna að útleigu árinnar og nú ítrekaði fundurinn fyrri samþykktir um umboð stjórnar,“ sagði hún.

„Menn sáu tækifæri í breytingunum, þetta gæti opnað ótal dyr.“ Rætt hafi verið að skoða mætti mögulega breytingu á þáttum eins og fjölda veiðidaga í hverju holli, skiptingu í veiðisvæði og staðsetningu veiðihúsa.

 

Birna játaði því að höfnun tilboðanna þýddi að veiðiréttarhafar teldu veiðiréttinn meira virði en birtist í tilboði SVFR.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum mbl.is