Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
17. janúar 2013

Veiðisportið verði heilsársíþrótt

Það er algengt að veiðimenn vanmeti mikilvægi  góðrar tækni við veiðar og missi þar af leiðandi af enn ánægjulegri upplifun sem fluguveiðin svo sannarlega er. Gott flugukast gerir veiðimanninum kleift að kljást við erfiðar aðstæður í umhverfinu og auka líkurnar á að setja í fisk. Börkur Smári Kristinsson, 22 ára nemi við Háskóla Íslands, hefur haldið flugukastnámskeið um nokkurt skeið.

 

Fyrsta námskeiðið byrjar á sunnudaginn og framhaldsnámskeiðin fylgja svo í kjölfarið. Á námskeiðunum einbeitir hann sér að því að kenna, laga og bæta flugukasttækni veiðimanna. Skráning fer fram á veiðiheimur.is.

Áhuginn kviknaði í grunnskóla

Börkur hefur veitt frá unga aldri. Hann tók fyrst í flugustöng þegar hann var 15 ára. Sjálfur fór hann aldrei á námskeið né lærði af reyndari mönnum, endaði kastaði hann ekkert sérlega vel fyrstu árin. „Ég kynntist svo flugukastkennslu seinna meir og tók alþjóðleg flugukastkennararéttindi hjá Federation of Fly Fishers árið 2011. Síðan hefur áhugi minn á köstunum og kennslunni vaxið sífellt.“ Börkur segir markmið sitt vera að kynna sem flestum ánægjuna og skemmtunina sem fylgir því að geta kastað flugu vel og að hjálpa fleiri að ná þeirri færni.

 

Áhugi Barkar á þessu sporti kviknaði á fluguhnýtingarnámskeiði þegar hann var í grunnskóla. „Húsvörðurinn í skólanum tók að sér að kenna þetta og við vorum nokkur sem mættum til hans einu sinni  í viku allan veturinn. Þarna kolféll ég fyrir hnýtingum en hafði ekki byrjað að veiða á flugu. Um vorið tók ég mig til og fór á hverju einasta kvöldi upp að Vífilsstaðavatni með mínar eigin hnýttu flugur og  reyndi fyrir mér. Eins og gefur að skilja vissi ég ekkert hvað ég átti að gera og veiddi ekki fisk fyrr en um mitt sumar. Þá var ég búinn að berja vötnin í rúmlega tvo mánuði samfleytt en ógurlega fannst mér það skemmtilegt samt sem áður.

 

Það geta allir kastað flugu

Börkur býður upp á þrjár tegundir námskeiða. Það fyrsta er grunnnámskeið en næstu tvö  eru framhaldsnámskeið þar sem grunnurinn frá fyrra námskeiði er nýttur til aukinnar fræðslu. „Á grunnnámskeiðunum er fjallað um búnaðinn, stangir, línur, tauma og hvernig búnaðurinn vinnur saman í kastinu. Svo er byrjað frá grunni í að kasta og í lok námskeiðsins er markmiðið að nemendur séu komnir með góðan skilning á köstunum og geti unnið úr þeim upplýsingum í framhaldinu og bætt köstin enn frekar. Þetta námskeið hentar byrjendum jafnt sem þeim sem hafa kastað lengi en hafa aldrei fengið almennilega tilsögn.” Á framhaldsnámskeiðunum aukast kröfurnar. Börkur segir alla geta kastað flugu. Sumir nái því strax en aðrir þurfi lengri tíma. Með réttri leiðsögn frá upphafi og æfingu verða fluguköst oft og tíðum eitt það skemmtilegasta við sjálfa veiðina.

 

„Á framhaldsnámskeiðunum er farið í flóknari hluti eins og til dæmis veltikastið, tvítog, speyköst og fleira. Þetta hljómar flókið en það kemur fólki alltaf jafn mikið á óvart hve auðvelt þetta í rauninni er. Þegar líður á vorið og tímabilið byrjar eru þátttakendur í stakk búnir til að geta farið að veiða og haldið áfram að þróa með sér og bæta við þekkinguna.“

 

Vonar að veiðisportið verði heilsársíþrótt

Börkur segir námskeiðin vera ætluð þeim sem vilji sinna fluguveiðiáhugamálinu á annan hátt en bara við fluguhnýtingar yfir veturinn. Hann segir fluguköst og góða færni í þeirri iðju lítt þekkt hér á landi. „Vissulega eru einstaklingar hér sem eru þrusugóðir kastarar og vita alveg um hvað þetta snýst en almenna hugarfarið er að þetta sé bara aukahlutur í þessu. Þetta er þó svo miklu meira en það og sennilega einn mikilvægasti  þátturinn í þessu sporti.“

 

Börkur segir að veiðisportið geti vel orðið heilsársíþrótt. Það sé þó lítið hægt að veiða yfir veturinn, eins og gefur að skilja, en tilvalið sé að æfa köstin. „Að kasta yfir vetrartímann er eitthvað sem þekkist ekki hér en til dæmis í Svíþjóð þá eru heilu frjálsíþróttasalirnir undirlagðir af flugukösturum, einu sinni til tvisvar í viku, allan veturinn. Enda keppa þeir í fluguköstum, á heims- og Evrópumeistaramótum og standa sig manna best. Þetta hugarfar vona ég að muni ná fótfestu hér á landi í náinni framtíð, en fyrst er að fá fólk til að stunda sportið og hafa gaman af því, um það snýst þetta.“

 

Þetta viðtal er að finna á vef Fréttatímans