Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
30. nóvember 2012

Landnám laxins vonum framar

Rannsóknir Veiðimálastofnunar í Selá í Vopnafirði sýna að landnám laxa í efri hluta árinnar gengur vel. Þessa ályktun draga sérfræðingar af dreifingu þeirra ellefu laxa sem merktir voru síðsumars með merkjum sem gefa frá sér útvarpsmerki. Merkin gera það kleift að fylgjast með hverjum þeirra úr flugvél. 

Fiskvegurinn í Efri-fossi Selár er næst á myndinni. Mynd ©Veiðimálastofnun

Í ágúst 2010 var opnaður nýr fiskvegur í Efri-Fossi sem er 28 kílómetra frá sjó en opnar víðáttumikil svæði til viðbótar fyrir lax. Teljari er í nýja fiskveginum og gengu um 90 laxar um hann á liðnu sumri. 

Eftir merkingarnar í ágúst flugu sérfræðingar fyrst til leitar 5. október og þá voru laxarnir við þá staði sem þeir voru merktir á, en höfðu mjakast upp á við. Í flugferðum 21. október og 15. nóvember höfðu laxarnir dreift vel úr sér og hrygning greinilega í algleymingi. 

Efsti fiskur var þá kominn um níu kílómetra upp fyrir Efri-Foss. Er þetta framar vonum hve fljótt laxinn nemur land, því í sams konar merkingu árið 2011 höfðu laxarnir ekki gengið nema um fjóra kílómetra upp ána, en þá fundust einnig tveir laxar í hliðaránni Selsá sem einnig er nýr landnámsstaður. 

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Visir.is

 

Nánar er hægt að lesa á vef Veiðimálastofnunar