Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
27. nóvember 2012

Hvatning til veiðiréttarhafa um að skila veiðibókum fyrir stangveiði og veiðiskýrslum fyrir netaveiði.

Veiðimálastofnun vill minna alla veiðiréttarhafa sem ekki hafa skilað veiðiskýrslum fyrir 2012 að gera það sem allra fyrst. Skráning og úrvinnsla veiðitalna stendur nú yfir en upp úr veiðibókum eru skráðar upplýsingar um alla veidda fiska. Sú skráning hefur staðið um árabil hér á landi og er með því besta sem þekkist fyrir laxfiska í heiminum.  

 

Mikilvægt er að þeirri skráningu sé viðhaldið og að öll veiði sé skráð. Stefnt er að því að heildarsamantekt fyrir veiðina 2012 liggi fyrir á fyrri hluta ársins 2013 og því fyrr sem veiðibækur berast til skráningar því fyrr verður því verki lokið. Á síðasta veiðitímabili skráðu nokkur veiðifélög veiði jafnóðum í Skrínuna sem er gagnagrunnur á netinu. Sú skráning flýtir fyrir úrvinnslu í heild og hefur hún almennt gengið vel og sannað gildi sitt.  Nánari upplýsingar um rafræna skráningu veiði má fá á heimasíðu Veiðimálastofnunar og eru veiðiréttarhafar hvattir til að kynna sér þennan möguleika.

 

Veiðiskráning er gjarnan lögð til grundvallar við mat á veiðivon og verðmæti veiða og því litið til hennar við útboð á veiðiám og kaup á veiðileyfum. Jafnframt er góð veiðiskráning mikilvæg þegar kemur að skiptingu verðmæta innan veiðifélaga, en arðskrár eru m.a. notaðar til að deila arði á milli veiðiréttarhafa. Mikilvægt er að veiðibækur séu samviskusamlega skráðar og að skráning veiði eftir veiðistöðum sé rétt útfyllt. Slíkt auðveldar veiðiréttarhöfum að sjá dreifingu veiði innan áa sem síðar nýtist við gerð arðskrár.  Auk þess sem veiðitölur nýtast vegna hagrænna þátta eru þær mikilvægar til að fylgjast með vistfræði og stofnbreytingum laxfiska og þannig mikilvægur grunnur við að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Líkt og með veiðibækur eru þeir sem netaveiði stunda hvattir til að senda veiðiskýrslur sem fyrst til úrvinnslu.

 

Veiðibækur eru endursendar til veiðifélaga/veiðiréttarhafa að lokinni skráningu ásamt nýjum veiðibókum og samantekt veiðinnar fyrir komandi veiðitímabil. Heildarsamantekt hvers veiðiárs er  gefin út í skýrslu sem er ávallt aðgengileg á heimasíðu Veiðimálastofnunar líkt og aðrar skýrslur frá stofnuninni.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar