Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
16. nóvember 2012

Ákveðið að setja Norðurá í útboð

Veiðiréttareigendur við Norðurá í Borgarfirði hafa ákveðið að setja ána í formlegt útboð sem miði að því að nýir leigutakar taki við ánni vorið 2014. Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns nýverið slitnaði upp úr samningnum milli Stangveiðifélags Reykjavíkur og landeigenda, en hann var síðast endurnýjaður í vor. SVFR hefur haft ána á leigu í 66 ár. Samkvæmt núgildandi samningi greiðir félagið 83,5 milljón fyrir leigu árinnar á þessu ári en á næsta ári átti félagið að greiða 102 milljónir króna. SVFR treystir sér ekki til að greiða svo mikið og hefur óskað eftir lækkun á leiguverði vegna næsta sumars. Ekki hefur þó tekist samkomulag um lækkun greiðslunnar milli aðila.

Norðurá í Borgarfirði
 

 

 

Eins og mönnum er í fersku minni veiddist óvenjulega lítið af laxi í Norðurá á liðnu sumri, einungis 953 laxar, eða meira en helmingi færri laxar en sumarið 2011. Að sögn Birnu G Konráðsdóttur formanns Veiðifélags Norðurár var stjórn falið á fundinum í gær að vinna að útboðsgögnum fyrir ána og kynna þau eins fljótt og verða má. Fyrr í haust þegar ljóst var að SVFR myndi falla frá leigu árinnar eftir 2013, lét veiðifélagið þau boð út ganga að þeir sem vildu leigja ána gætu sent inn tilboð til veiðifélagsins. Birna segir að tveir aðilar hafi spurst fyrir án þess þó að senda inn formleg tilboð. Í ljósi þess hafa landeigendur nú ákveðið að heillavænlegast væri að auglýsa ána með formlegum hætti.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Skessuhorn.is