Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
5. nóvember 2012

Lækir á háhitasvæðinu í Henglinum nýttir til að spá fyrir um áhrif loftslagshlýnunar á vatnalíf

Næstkomandi föstudag, 9. nóvember, mun Rakel Guðmundsdóttir líffræðingur verja doktorsritgerð sína sem ber titilinn Frumframleiðendur í norðlægum lækjum og áhrif aukins hita og næringar á framvindu þeirra (Primary producers in sub-Arctic streams and the influences of temperature and nutrient enrichment on their succession).

Vörnin mun fara fram í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, föstudaginn 9. nóv. kl. 14:00

 

Ágrip:

Átta misheitir lækir á jarðhitasvæðinu í Hengladölum á Hellisheiði voru notaðir til þess að prófa tilgátur um hugsanleg áhrif loftslagshlýnunar á samfélög frumframleiðenda. Einnig voru prófaðar tilgátur um áhrif næringarefnaaukningar á gróður í lækjunum. Í ljós kom að í kaldari lækjunum var frumframleiðslan að mestu leyti smásæir þörungar á steinum en í þeim heitari var ármosi (Fontinalis antipyretica) ríkjandi frumframleiðandi.

 

Fjölbreytileiki kísilþörunga var ekki marktækt tengdur hita þó mestur fjöldi tegunda hafi fundist í kaldari lækjunum. Vaxtarform kísilþörunga voru að jafnaði einsleitari í heitari lækjunum en þeim köldu. Smáir kísilþörungar voru marktækt meira áberandi í heitu lækjunum en þeim köldu.

Næringarefnaaukning örvaði vöxt ármosa (F. antipyretica) og grænþörunga í heitu lækjunum en lífmassi niturbindandi blágrænna baktería (Nostoc spp.) minkaði hins vegar. Lífmassi kísilþörunga jókst marktækt við næringarefnaaukninguna á meðan fjölbreytileiki þeirra minnkaði. Hreyfanlegum kísilþörungum (Nitzschia spp.) fækkaði við næringarefnaaukninguna.

 

Andmælendur eru Prófessor Richard Battarbee við University College London og Dr. Maria M. K. Kahlert dósent við Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar í Uppsölum. Leiðbeinendur Rakelar eru Prófessor Brian Moss við Háskólann í Liverpool, Prófessor Gísli Már Gíslason við Líf og Umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Dr. Jón S. Ólafsson sérfræðingur hjá Veiðimálastofnun. Með þeim í doktorsnefnd eru: Dr Sigurður Reynir Gíslason, Háskóla ‚Íslands, Dr. Karl Gunnarsson, Hafrannsóknastofnuninni og Dr. Nikolai Friberg, Árósaháskóla.

 

Dr. Eva Benediktsdóttir dósent við Líf og Umhverfisvísindadeild og forseti Líf og Umhverfisvísindadeildar við Háskóla Íslands mun stjórna athöfninni.

 

Ritgerðina er hægt að nálgast hér:

Doktorsritgerð Rakelar Guðmundsdóttur

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar