Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
4. nóvember 2012

Athugasemdir Landssambands veiðifélaga við drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga

Landssamband veiðifélaga gerir eftirfarandi athugasemdir vegna frumvarpsdraga til breytinga á náttúrverndarlögum sem umhverfis-og auðlindaráðuneytið hefur birt til kynningar.

 

Landssambandið gerir alvarlegar athugasemdir við undirbúning frumvarps til nýrra náttúruverndarlaga.  Svo virðist sem ráðuneytið telji sig ekki þurfa að fara að reglum sem skráðar eru í handbók sem forsætisráðuneytið gaf út árið 2007, um undirbúning og frágang lagafrumvarpa.  Þetta á sérstaklega við um ákvæði 2.  gr. varðandi mat og rökstuðning fyrir nauðsyn lagasetningar og ekki síður um ákvæði 4. gr. lið 3 um samráð við almenning og hagsmunaaðila.  Ljóst er að engin umræða hefur farið fram við eigendur lands eða landsréttinda um efni frumvarpsins á undirbúningstíma þess.  Þetta er sérlega ámælisvert þar sem frumvarpið gengur á ýmsum sviðum nærri lögvörðum hagsmunum landeigenda.  Ekki verður  ráðið af lestri frumvarpsins að höfundar þess beri ótakmarkaða virðingu fyrir séreignarrétti á landi sem þó er m.a. varinn í stjórnarskrá lýðveldisins.  Landssamband veiðifélaga telur fullt tilefni til að endurskoða ýmis ákvæði  laga um náttúruvernd en lýsir andstöðu við frumvarpið í núverandi búningi.

 

Landssamband veiðifélaga gerir einnig athugasemdir við að einungis eru gefnar 3 vikur til athugasemda frá því að frumvarpið er kynnt á vef ráðuneytisins.  Þarna er um mjög viðamikið mál að ræða og því allt of skammur tími gefinn til að skoða réttaráhrif frumvarpsins.  Nær hefði verið að gefa hagsmunaaðilum kost á að taka þátt í vinnu við undirbúning nýrra laga um náttúruvernd og skapa þannig sátt um þennan málaflokk.  Það er miður, að sú leið hafi verið valin, að láta þessu vinnu fara fram án aðkomu eða samráðs við þá hagsmunaðila sem eiga land og réttindi því teng. Slíkt mun augljóslega  leiða til ágreinings og átaka um þennan mikilvæga og vandmeðfarna málaflokk.

 

Ekki verður annað ráðið af frumvarpsdrögunum,  en það sé mat ráðuneytisins að landeigendur almennt fari illa með eignarlönd og brýn þörf sé fyrir hendi að setja reglur til að stemma þar stigu við.  Engan rökstuðning fyrir slíku er þó að finna í frumvarpsdrögunum, heldur virðist þessi þörf byggð á persónulegri skoðun höfunda þess.  Þetta sjónarmið hlýtur að liggja til grundvallar fráleitum ákvæðum 31. gr. um bann við akstri vélknúinna ökutækja utan GPS merktra slóða á eignarlöndum.  Landssamband veiðifélaga telur að þessi ákvæði muni gjörbreyta framkvæmd reglna um bann við utanvegaakstri  frá því sem nú er, og torvelda nýtingu veiðivatna.  Sjónarmið okkar um þessi efni liggja fyrir í umsögn landssambandsins vegna frumvarps til breytinga á náttúrverndarlögum sem lagt var fram á síðasta þingi og vísum við til þess sem þar kemur fram.  Landssamband Veiðifélaga vekur einnig athygli á breytingartillögu umhverfis-og samgöngunefndar, um bann við utanvegaakstri, sem kom fram á síðustu dögum vorþingsins við sama frumvarp.  Sú tillaga  er um margt hóflegri og skynsamlegri en ákvæðin í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum.  Nauðsynlegt er að ná sátt um skýrar reglur til að koma í veg fyrir landskemmdir vegna aksturs utan vegar.  Þær reglur þurfa að taka mið af því vandamáli sem er til staðar og vera auðveldar í framkvæmd.  Slík ákvæði eiga að taka til þjóðlendna og annarra eignarlanda opinberra aðila. Að öðrum kosti þarf ráðuneytið að sýna fram á nauðsyn þess að setja  sömu reglur innan eignarlanda.

 

Landssamband veiðifélag lýsir sérstakri andstöðu við að það ákvæði sem fram kemur í 1 tl. 97. gr. um að fella brott Xll kafla vatnalaga og taka upp sérstök ákvæði í náttúrverndarlög um efni hans og fella undir kafla um almannarétt sbr. 21. gr. frumvarpsdraganna.  Ákvæði laga um umferðarrétt almennings á vötnum þarfnast endurskoðunar.  Við þá endurskoðun er nauðsynlegt að taka tillit til þess að nýting veiðivatna er þýðingarmikil atvinnugrein á Íslandi.  Óljós og opin ákvæði 21. greinarinnar eru virðingarleysi við þau verðmæti sem felast í nýtingu veiði.  Ákvæði um rétt almennings til baða eru arfleifð sem skoða þarf í ljósi breyttra tíma.  Það er mat landssambandsins að setja þurfi í vatnalögin skýrari takmarkanir á réttindi til handa almenningi varðandi umferð á, og sund og böð í ám og vötnum innan eignarlanda.  Á það t.d. við um hvar slíkt sé óheimilt með öllu, gerð farartækja, notkun sápuefna við böðun o.s.frv.  Þá vantar ákvæði í lög um húsbíla sem ferðamenn flytja til landsins vegna þeirrar hættu sem stafað getur af vatnsgeymum og vatnsbirgðum sem með þeim kunna að verða flutt.  Íslenskt vistkerfi í ám og vötnum er algjörlega óvarið gegn framandi sníkjudýrum sem leynast kunna í innfluttu vatni með slíkum farartækjum. Þarna er mikil hætta á ferðum eins og dæmin sanna þegar sníkjudýrið Gyrodactylus var flutt  til Noregs með þeim afleiðingum, að nú eru þar yfir 40 laxveiðiár laxlausar  af þeim sökum.

 

Landssambandið lýsir undrun á, að í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum sem nú stendur til að leggja fyrir Alþingi, er ekki að finna ákvæði um skyldu hins opinbera til að verja náttúru landsins gegn ágengum tegundum svo sem tófu og mink.  Þessum dýrategundum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og ógna  jafnvægi í dýralífi landsins.  Á slíkum þáttum þurfa ný lög um náttúruvernd að taka öðru fremur.  Þá má einnig benda á hin ósýnilegu verðmæti sem óðum eru að rýrna s.s. þekkingu landsmanna á örnefnum landsins.  Ekkert er að finna um skipulega skrásetningu  örnefna og varðveislu upplýsinga um staðsetningu þeirra í þeim frumvarpsdrögum sem nú hafa verið kynnt.

 

Á þeim skamma tíma sem gefinn er til að gera athugasemdir við frumvarpdrög að nýrri löggjöf um náttúruvernd er ekki unnt að gefa ítarlega umsögn um einstakar greinar þess og verður það því látið  bíða þess ef frumvarpið kemur fram á Alþingi.

 

 

Reykjavík 25. september, 2012,

 

F.h. Landssambands veiðifélaga

 

Óðinn Sigþórsson

 

Hér er hægt að nálgast ofangreint bréf. Þar er að finna umsagnir, ályktanir, fundargerðir, fréttabréf og fl.