Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
31. janúar 2012

Minnkandi lengdar- og þyngdarskráning veiddra laxa og skortur á reglulegri söfnun hreisturs til aldursgreininga

Við úrvinnslu veiðitalna úr ám landsins á undanförnum árum hefur komið í ljós að sífellt færri laxar eru þyngdarmældir. Að hluta er um að kenna síauknum fjölda laxa sem sleppt er en hafa þarf við höndina málband út á bakka veiðiáa til að lengdarmæla þá fiska. Veiðimenn hafa verið hvattir til að lengdarmæla fiska sem sleppt er aftur ef ekki er hægt að koma þyngdarmælingum við. 

Í mörgum tilfellum sést að veiðimenn hafa giskað á þyngd og skrá lengd eftir þekktu sambandi lengdar og þyngdar hjá laxi. Með slíku móti er hætta á að fram komi kerfisbundnar skekkjur í skráningu. Í íslenskum ám hefur lengst af verið hægt að greina sjávaraldur laxa út frá þyngdardreifingu með allmikilli nákvæmni. Þannig hafa flestar hrygnur yfir 3,5 kg og hængar yfir 4 kg dvalið tvö ár sjó en laxar undir þessum mörkum verið eitt ár í sjó. Á síðustu árum hefur veiðst nokkuð af mjög smáum löxum (0,7-1,5 kg) og einnig laxar undir 3,5 og 4 kg sem hafa dvalið 2 ár í sjó. Til að skera úr um sjávaraldur þegar svo háttar til er mikilvægt að hafa hreistursýni til aldursgreininga. Vegna veiða og sleppa hefur hreisturtaka víða minnkað og fram geta komið skekkjur ef taka hreistursýna er ekki að endurspegla aldurs- og stærðardreifingu í viðkomandi stofnum. Slíkt getur komið fram til dæmis ef meira er tekið af hreistri af smáum löxum en stórum en víða er komin á sú skylda að sleppa stórum löxum.

 

Veiðiskráning gefur mikilsverðar upplýsingar um stofnstærðir og ástand laxastofna auk þess sem greining hreistursýna gefur mikilsverðar upplýsingar um vöxt, stærð og afdrif árganga. Veiðimann og veiðiréttarhafar eru hvattir til að bæta skráningu veiði og koma á kerfisbundinni hreisturtöku af löxum, sérstaklega úr þeim ám þar sem til eru magra ára raðir af hreistursýnum.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar