Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
24. janúar 2012

Veiðimálastofnun og HÍ í samstarf

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í gær samning um samstarf stofnananna á sviði rannsókna og menntunar. Markmið samningsins er að efla þekkingu um vernd og nýtingu auðlinda í ferskvatni, grunnþekkingu á nýtingu fiskstofna, á fiskrækt og fiskeldi.

Kristín Ingólfsdóttir og Sigurður Guðjónsson innsigla samstarf. Mynd ©Vmst
 

Til þess að ná markmiðunum munu Háskóli Íslands og Veiðimálastofnun skipa samstarfsnefnd með tveimur fulltrúum frá hvorri stofnun. Þar munu fulltrúar beggja aðila m.a. kynna rannsóknir og hugmyndir að sameiginlegum rannsóknaverkefnum, þ.m.t. hugmyndir að námsverkefnum sem unnin verða á grundvelli efniviðar og gagna Veiðimálastofnunar. Þá á nefndin að vinna að sameiginlegum umsóknum um rannsóknastyrki og greina möguleika á því sviði.

 

Meðal annarra verkefna samstarfsnefndarinnar er að stuðla að samvinnu stofnananna um þróun framhaldsnáms við Háskóla Íslands á sameiginlegum fræðasviðum. Lögð verður áhersla á að sérfræðingar Veiðimálastofnunar taki þátt í kennslu í námskeiðum sem snúa að sérsviðum þeirra. Þá verður nemendum við Háskóla Íslands gefinn kostur á að vinna verkefni undir sameiginlegri leiðsögn Veiðimálastofnunar og starfsmanna háskólans.

 

Einnig er stefnt að því að auka framboð á styrkjum til nemenda í rannsóknanámi á sameiginlegum fræðasviðum stofnananna, að standa að fundum og málstofum um rannsóknir á sviðunum, samnýta rannsóknatæki og skilgreina námskeið við Háskóla Íslands sem felast í þátttöku stúdenta í rannsóknaleiðöngrum og annarri starfsemi Veiðimálastofnunar. Enn fremur er ætlunin að efla samstarf Veiðimálastofnunar, starfsstöðva hennar úti á landi og rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni.

Samningurinn er til þriggja ára og verður árangur samstarfsins metinn þegar eitt ár er eftir af samningstímanum.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar