Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
18. janúar 2012

Hár aldur ála í Elliðaám

Áll sem elst upp á Íslandi getur náð háum aldri. Við rannsókn á bjartálum (sjá skýrslu) sem voru að ganga niður Elliðaárnar kom í ljós að þeir náðu allt að 40 ára aldri.  Eins og kunnugt er hrygnir áll í sjó, nánar tiltekið í Þanghafinu. Seiði þeirra synda með Golfstraumnum og berast að ströndum Evrópulanda m.a. Íslands.  Álaseiðin, sem þá eru kölluð gleráll, ganga svo upp í ferskvatn og alast þar upp.

Góður afli í álagildru
  

Nokkuð virðist ganga af glerál upp í Elliðaárnar og líklega fer mest af honum upp í Elliðavatn og dvelur þar fram að kynþroska.  Þegar kynþroska er náð fer állinn í göngubúning líkt og laxfiskar sem eru á leið til sjávar, verður þá állinn ljósari yfirlitum og kallast bjartáll.

Kvörn úr bjartál í Elliðaám. Kvörnin var brennd og brotin þannig að hér sést í sárið og árin eru merkt með gulum punktum.©Veiðimálastofnun

Starfsmenn Veiðimálastofnunar tóku yfir 100 bjartála til rannsókna árabilið 1999-2005 og skrásettu niðurgöngutíma, lengd, þyngd, kyn og aldur fiskanna. Kom þá í ljós að bjartáll á lengdarbilinu 53-103 cm var á aldursbilinu 13-40 ára gamall. Meðalvöxtur hvert ár var því einungis 2-3 cm á ári.

Lengdardreifing bjartáls úr Elliðaám. ©Veiðimálastofnun

Allur állinn sem kom niður Elliðaárnar voru hrygnur en talið er að hængarnir haldi sig neðar í vatnakerfum eða á strandsvæðum í sjó. Aðalgöngutími álsins var frá miðjum september til miðs nóvember. 

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar.