Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
13. janúar 2012

Enn finnst DDT við Steingrímsstöð

Enn í dag finnst skordýraeitrið DDT bæði í seti og jarðvegi við Steingrímsstöð og í Úlfljótsvatni, en mikið magn af efninu var notað til að útrýma mývargi við byggingu virkjunar á árunum 1957 og 1958. Styrkur DDT efna er hins vegar lítill og hefur ekki haft varanleg áhrif á bitmý og annað vatnalíf.

Bitmý/mývargur (Simulium vittatum) Mynd ©Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn
 

Þetta kemur fram í skýrslu sem Landsvirkjun lét vinna um notkun þrávirka lífræna varnarefnisins DDT á árunum 1957 og 1958. Í skýrslunni, sem unnin er af Verkís, er fjallað um DDT og greint frá löggjöf og umhverfiskröfum hér á landi og erlendis. Þá er gerð grein fyrir mælingum á DDT efnum í jarðvegi og seti og lagt mat á mengun svæðis við Steingrímsstöð og í Úlfljótsvatni og áhrif á lífríki.

 

Við mælingar fundust DDT efni bæði í seti og jarðvegi og var styrkur þeirra hærri en á viðmiðunarsvæðum á Íslandi. Styrkur DDT efna er hins vegar lítill í samanburði við viðmiðanir annarra þjóða og ekki talinn geta skapað hættu eða valdið mönnum eða dýrum skaða að því er fram kemur í skýrslunni. Áhrif á lífríki eru talin staðbundin en ekki varanleg þar sem bitmý og annað vatnalíf hefur tekið við sér að nýju og hefur framhjárennsli í Efra Sogi á undanförnum árum einnig haft jákvæð áhrif á vatnalíf.

 

Á meðan unnið var að byggingu Steingrímsstöðvar var að sumarlagi mikill mökkur af bitmýi við útfall Þingvallavatns, Efra Sog og á byggingarsvæðinu í Kaldárhöfðanum. Í gamalli kvikmynd um Steingrímsstöð frá þessum tíma er að finna myndbrot er sýnir vel mergð bitmýsins á byggingarsvæðinu.

 

Bitmýið gerði starfsmönnum verktakafyrirtækisins mjög erfitt fyrir við störf sín. Það varð jafnvel til þess að menn lögðu niður vinnu og erfitt reyndist að fá iðnaðarmenn til starfa við byggingu Steingrímsstöðvar sökum flugunnar. Því var á árinu 1957 gerð fyrsta tilraun til þess að eyða flugunni með því að dreifa DDT meðfram bökkum Úlfljótsvatns. Dreift var um 5% blöndu af DDT með físibelg meðfram bökkum Úlfljótsvatns, norðan við innrennsli Efra-Sogs í Úlfljótsvatn þar sem núverandi vegur liggur að stöðvarhúsi.

 

Þessi aðgerð dugði skammt og voru því kallaðir til sérfræðingar frá Háskóla Íslands til að rannsaka hegðun flugunnar. Niðurstöður þeirra voru að klak flugunnar væri að stærstum hluta í Efra Sogi, rétt neðan útfallsins úr Þingvallavatni, sem er í samræmi við það sem vel þekkt er í dag að mergð bitmýs er gjarnan mest þar sem mest framboð er af fljótandi lífrænum ögnum sem er gjarnan í útfalli frjósamra vatna. Sérfræðingarnir lögðu til að eitrað yrði á þeim tíma er flugan klektist út. Einnig að díselolíu væri blandað við DDT lausnina til þess að skordýraeitrið flyti betur á yfirborði vatnsins niður farveginn.

 

Starfsmenn byggingafyrirtækisins Efrafalls sáu um að dreifa skordýraeitrinu rétt neðan útfallsins. Líklegt er að dreifing efnisins hafi að mestu átt sér stað á árinu 1958 og talið er að um 85-95% sterkri blöndu af DDT hafi verið blandað saman við steinolíuna, en settir voru 5-10 kg pokar af DDT í 200 lítra tunnu af díselolíu sem látið var leka úr í árvatnið. Dreifingin átti sér stað á klaktíma flugunnar en hún var endurtekin 2-3 sinnum.

 

Að mati fyrrverandi starfsmanns verktakafyrirtækisins sem tók þátt í dreifingu efnisins gegn gegn mývarginum, þá hafi þær aðgerðir orðið til þess að bitmýið hvarf við Efra Sog sumarið 1959.

 

Bitmýið er ein mikilvægasta fæða fiska og fugla í straumvatni. Dreifing DDT á klaktíma flugunnar við Efra Sog og síðan stíflun farvegarins í framhaldinu hefur að mati skýrsluhöfunda, að öllum líkindum orðið til þess að mýið við Efra Sog nánast hvarf. Það megi hins vegar ekki gleyma því að með tilkomu stíflunnar var tekið fyrir rennsli um Efra-Sogs, sem haft hefur þau áhrif að lirfur bitmýsins þrifust þar ekki lengur fyrr en að rennsli var hleypt um nýjan leik um farveg Efra Sogs. Hrun á bitmýsstofnum á svæðinu hefur að öllum líkindum leitt til minna fæðuframboðs fyrir fiskstofna Úlfljótsvatns.

 

Sýni voru tekin árið 2000, 2001 og 2011 í þeim tilgangi að mæla styrkur DDT-efna . Í ljós kom að hann er mjög lágur í gróðursýnunum og með öllu hættulaus dýrum. Niðurstöður efnagreininga á jarðvegssýnum leiddu í ljós að DDT-efni voru að finna í tveimur sýnum af fjórum sem tekin voru 2000-2001.

 

Niðurstöður setsýnatöku árið 2011 voru þær að DDT efni fundust í 3 sýnum af 5. Niðurstöður benda til að DDT efni sé helst að finna norðarlega í Úlfljótsvatni eins og við var að búast.

 

Skýrsla Landsvirkjunar

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Mbl.is