Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
7. janúar 2012

Orsök mismunandi veiði í Hofsá og Selá í Vopnafirði síðustu árin

Fyrir nokkru kom út hjá Veiðimálastofnun samantekt á rannsóknargögnum til lengri tíma úr Hofsá, Selá og Vesturdalsá í Vopnafirði með það að markmiði að skýra breytingar á innbyrðis veiði í ánum og er hér drepið á helstu niðurstöður.

Gönguseiðagildra og fiskteljari í Vesturdalsá  Mynd © Veiðimálastofnun
 

Frá því rafræn skráning veiðigagna hófst 1974 þá hefur skráningin sýnt að laxveiðiárnar þrjár í Vopnafirði, Hofsá, Selá og Vesturdalsá fylgjast mjög vel að í laxveiðisveiflum. Þær fylgjast að í fleiri þáttum s.s. seiðavísitölum og hitafari. Upp úr aldamótum fer þetta samhengi í laxveiði að gliðna milli ánna. Skýringin var ljós með Vesturdalsá þar sem ákvörðun var tekin um að minnka veiði í henni vegna lítils hrygningarstofns um árabil. En ekki var ljóst hvað orsakaði mismun milli Hofsár og Selár, þar sem þær höfðu fylgst mjög vel að í laxveiði og Hofsá jafnvel veitt betur en nú tók Selá að síga fram úr.

1. mynd. Þéttleiki allra árganga laxaseiða í ánum þremur í Vopnafirði árabilið 1979-2011.  

 Mynd © Veiðimálastofnun

 

Seiðastofnar ánna hafa verið vaktaðir frá 1979, veiðiskráning var góð, hreistursýnum hefur verið safnað af laxi í Hofsá og Vesturdalsá í 23 ár, gönguseiði á niðurleið hafa verið talin í Vesturdalsá frá 1989 og talning á laxi farið fram í sömu á frá 1995. Hitamælingar eru til úr öllum ánum en lengsta serían í Vesturdalsá (20 ár). Við greiningu á öllum þessum gögnum var mögulegt að varpa ljósi á það af hverju Hofsá fór að dragast aftur úr Selá í veiði.

Nokkru fyrir aldarmót var farið að sleppa veiddum laxi bæði í Selá og Hofsá, fyrst í smáum stíl en síðustu fimm árin hefur um 70% af veiddum laxi verið sleppt aftur. Það hefur því aukið hrygningu til muna miðað við það sem áður var. Einnig kom tímabil (árin 2003-2005) sem var mjög hagstætt seiðum, bæði jókst þéttleiki seiða og vaxtarhraði til sömu tíðar. Mestur varð þéttleiki seiða í Hofsá og meiri en nokkru sinni fyrr. Þrír seiðaárgangar í röð voru mjög sterkir í Hofsá.

2. mynd. Samhengi þéttleika 2+ laxaseiða við fjölda laxa sem þessir árgangar gáfu í veiði síðar meir. Árin 2006 og 2007 eru ekki með við útreikning línunnar en punktalínurnar frá þeim árum sýna hver veiðin úr hefði átt að verða úr þessum tveimur árgöngum ef allt hefði verið með felldu. Mynd © Veiðimálastofnun

Þegar rakið var í gegnum hreistursýni hvað hefði skilað sér af þessum árgöngum kom í ljós að yfir allt tímabilið var marktækt samhengi á milli mats á tveggja ára seiðum og hvað þau gáfu í veiði síðar meir. En þar skáru tveir árgangar seiða sig verulega úr. Það voru tveir seinni árgangarnir af þeim þremur stóru sem komu í röð (árin 2005-2007 þá tveggja ára seiði). Annar gaf aðeins um helming og hinn gaf einungis þriðjung af því sem vænta mátti.

 

Þetta var túlkað þannig að þegar þéttleiki og lífþyngd seiðanna var orðinn mjög mikill í Hofsá þá hafi seinni tveir árgangarnir (2006 og 2007) tapað tölunni óeðlilega mikið miðað við önnur ár. Það hafi gerst annað hvort frá því þeir voru metnir stórir að hausti sem tveggja ára seiði þar til að vori þegar þeir áttu að ganga út sem þriggja ára seiði, eða þá að seiðin hafi verið horuð og illa undir sjávardvölina búin og því orðið fyrir meiri afföllum fyrstu vikurnar í sjó. Þetta eru kallað þéttleikaháð áhrif þ.e. samkeppni milli seiðanna verður mikil bæði um fæðu og skjól sem aftur kemur fram í rýrnandi holdum og auknum afföllum þeirra. Þegar hrygningarstofn er stór, klak tekst vel og góð vaxtarskilyrði eru fyrir hendi hjá seiðunum þá getur ásetningur á búsvæði seiðanna orðið of mikill sem endar með hækkandi dánartölu seiða.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar