Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. janúar 2012

Virkjanir ógna laxastofninum í Þjórsá

Formaður NASF , verndarsjóðs villtra laxa, hvetur til umtalsvert meiri rannsókna á lífríki Þjórsár áður en frekari ákvarðanir eru teknar um virkjanirnar þrjár í neðri hluta hennar. Hann telur hættu á að laxastofninn í ánni, sem er stærsti villti sjálfbæri stofninn á Íslandi, minnki um 80 til 90%.

Villtur lax © Sumarliði Óskarsson

 

Í umsögn til Alþingis um rammaáætlun gerir NASF alvarlegar athugasemdir við tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem gerir ráð fyrir að virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, verði settar í virkjunarflokk. NASF telur að þær skuli settar í verndarflokk, til að vernda laxa- og sjóbirtingsstofna í ánni, en til vara að virkjanirnar verði settar í biðflokk á meðan rannsóknir hæfra og óvilhallra vísindamanna fari fram til að meta áhrif framkvæmdanna á einstakan laxastofn árinnar. Ennfremur telur NASF að greina þurfi afdrif sjóbirtingsstofns árinnar áður en tekin er ákvörðun um virkjanaframkvæmdir.

 

Orri Vigfússon, formaður NASF, segir hættu á að lífríki fiskanna skreppi svo mikið saman, að það verði ekki svipur hjá sjón. Mesta vandamálið sé að koma seiðunum niður. „Bara við að gera þetta, þá metum við það að lífríkið skreppi það mikið saman að þar sem voru framleidd hundrað seiði áður, þar verði ekki framleidd nema 50-60 seiði," segir Orri. Þó ráðist sé í framkvæmdir við að reyna að koma seiðunum niður, sé ekki víst að takist að hitta á þann tíma sem passar seiðunum að fara til sjávar.

 

„Og það að skipulagsstofnun gefi svona grænt ljós á að þetta verði eitthvað prófað það er bara ámælisvert finnst mér. Fær maður leyfi fyrir öllu á Íslandi, bara afþví að maður ætlar að koma með mótvægisaðgerðir?" segir Orri.

Aðspurður að því hvað sé í húfi virki mótvægisaðgerðirnar ekki segir Orri: „Það er bara hreinlega laxastofninn í ánni. Ég geri ráð fyrir að hann muni skreppa saman um 80-90%."

 

Orri var gestur Síðdegisútvarps Rásar 2.

 

Þessa frétt er að finna á vefnum Ruv.is