Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
6. febrúar 2011

Náttúruperlur eða hentugar námur?

Lausleg könnun Veiðimálastofnunar árið 2008 leiddi í ljós að möl var tekin úr yfir 80 vatnsföllum á fimm ára tímabili. Malartekjan var mismikil eftir stöðum en mest nærri stærri þéttbýlisstöðum og stórum framkvæmdum. Mikið er um að framkvæmt sé án lögboðinna leyfa en Fiskistofa hyggst taka harðar á slíkum brotum með tilurð refsiheimilda í lögum. (Fréttablaðið 03.02.2011)

Malarnám í Sléttuá í Reyðarfirði  Mynd ©Fréttablaðið/Veiðimálastofnun

Áhrif malartekju á ár
Helsta áhyggjuefnið er stórtæk malartekja úr ám sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir viðgang fiskistofna. Ár eru mjög misjafnar hvað varðar vistgerð og lífmagn og því skiptir miklu til hvaða vatnsfalls framkvæmdir ná. Mat VMST er að meginreglan eigi að vera sú að forðast malartekju eins og kostur er. Hins vegar er í sumum tilfellum mögulegt að taka efni úr eða við ár, án þess að varanlegur skaði hljótist af fyrir lífríki, en þá skiptir máli hvar í ánum er borið niður. Þetta þarf hins vegar að meta og útfæra í hverju tilviki fyrir sig, eins og Þórólfur Antonsson, fiskifræðingur á VMST, og kollegar hans benda á í grein sinni.
Bjarni Júlíusson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir það allt of algengt að farið sé í malarnám í veiðiám eða við þær og afleiðingarnar geti verið skelfilegar. „Þegar möl er tekin úr áreyri sem hefur legið óhreyfð í hundruð ára er stundum eins og allt breytist. Í næsta flóði eða vorleysingum höfum við séð hundruð tonna af möl fara af stað og jafnvel fylla og eyðileggja veiðistaði sem liggja þar fyrir neðan. Ég hef séð fallega veiðistaði hverfa eftir að þjóðvegur var færður til og það tók veiðistaðinn mörg ár að verða að einhverju aftur.“ Bjarni segirað ef illa takist til geti hrygning laxfiska misfarist og hrygningarstaðir eyðilagst, en dæmi um slíkt eru þekkt hér á landi.
 
Ofangreint er úrdráttur úr grein sem birtist í Fréttablaðinu 3 febrúar 2011 og er hægt að lesa hér í heild sinni sem pdf-skjal.
 
Hér fyrir neðan er frétt sem er að finna á vef Veiðimálastofnunar
 
Áhrif malartekju úr ám á vatnalífríki

 

Malartekja í vatnsföllum á Íslandi hefur verið mikið til umræðu upp á síðkastið. Sérstaklega hefur verið fjallað um málefnið, m.a. vegna aukinna krafna stjórnsýslunnar á hendur framkvæmdaraðilum, sem hyggja á efnistöku í eða við fallvötn.  Árið 2009 voru gerðar breytingar á lax- og silungsveiðilögum sem gera það refsivert að fara í framkvæmdir, m.a. malartekju í og við ár og vötn án tilskilinna leyfa.
 
En hver eru áhrif malartekju á lífríki áa?
Hér neðanmáls verður birt samantekt erindis, sem flutt var á Fræðaþingi Landbúnaðarins árið 2008 og fjallaði um malartekjuna. 

 

Malartekja úr ám

 

Þórólfur Antonsson, Sigurður Guðjónsson, Magnús JóhannssonBenóný JónssonBjarni JónssonEik Elfarsdóttir og Sigurður Már Einarsson

 

Veiðimálastofnun

Keldnaholti

112 Reykjavík

 

Inngangur

Með auknum framkvæmdum og uppbyggingu á vegakerfi landsins óx þörf á malartekju og hefur sú þörf verið mikil síðustu áratugi.  Möl úr ám þykir heppileg um margt til framkvæmda.  Hægt er að velja kornastærð eftir stöðum og halla lands, efnið er tiltölulega hreint og þvæst jafnvel þegar því er mokað upp.  Oft á tíðum er einnig stutt að fara eftir efninu í árnar, sérstaklega til vegagerðar.  Fremur hefur verið sótt í ár þar sem ummerkin sjást síður en þegar efni er tekið á landi.  Slík malartekja úr ám getur hins vegar valdið miklum skaða á búsvæðum og lífríki ánna ekki síður en á landi.  Áhrifin geta náð langt út fyrir efnistökustað vegna efnistilflutnings og óstöðugleika botnsins.

 

Reynt hefur verið að taka á þessum málum til að lágmarka neikvæð áhrif.  Þar á meðal hefur lögum verið breytt til þess að taka betur á þessum málum, auk fræðslu á þessu sviði (sjá ítarefni). Enn fer þó víða fram malartekja í ám.  Oft er það byggt á hugsunarleysi, vanþekkingu eða það er réttlætt með því að vera fjárhagslega hagkvæmast miðað við aðra kosti.  Ný tækni og kunnátta í vinnslu jarðefna er nú til staðar og ætti að draga úr þörfinni á malartekju úr ám. 

 

Áhrif malartekju á ár

Lífríki í ám er mjög tengt gerð undirlagsins, straumhraða, næringarefnainnihaldi vatnsins, ljósmagni og hitafari.  Efnistaka úr ám hefur áhrif á tvo fyrst töldu þættina.  Líkt og í öðrum vistkerfum hefst lífkeðjan á frumframleiðni þörunga eða niðurbroti á aðkomnu lífrænu efni. Síðan koma til smádýr sem nýta sér þessi lífrænu efni.  Loks lifa fiskar á smádýrunum. Lífkeðjan er því stutt í ferskvatni hérlendis.  Grófleiki botnsins hefur mikið að segja um hve framleiðslan er mikil.  Samhengi er á milli grófleika botnsins og straumhraða.  Þar sem straumhraði er lítill sest að leir og sandur en í mesta straumhraðanum helst ekkert laust efni við og klöppin ein stendur eftir.  Í grófri möl og smágrýti (um 5-20 cm þvermál steina) er framleiðsla hvað mest og straumhraði hæfilegur fyrir margar lífverur. Eftir því sem botninn er “flóknari” er yfirborðsflötur meiri sem aftur eykur framleiðslu, auk þess að mynda skjól fyrir lífverur t.d. seiði laxfiska.  Hvað mest ásókn er einmitt í þetta efni til mannvirkjagerðar.

 

Áhrif þess að taka efni úr ám eru með beinum hætti á þær lífverur sem fyrir eru á námasvæðinu.  Farvegurinn dýpkar og fínna efni situr eftir. Straumhraði minnkar á því svæði.  Frumframleiðsla minnkar og skjól fyrir stærri dýr rýrnar.  Endurnýjun og framleiðsla lífríkisins eftir efnistöku verður því minni.  Ofan við efnistökustaðinn eykst á hinn bóginn straumhraði vegna aukins hæðarmismunar.  Þar með fer laust efni af stað og leitar niður í gryfjurnar.  Efnisskriðið hefur áhrif á lífríki á því svæði. Í verstu tilvikum situr aðeins eftir stórgrýti eða klöppin ein.  Áhrif þessa geta náð langt upp fyrir efnistökusvæðið.

 

Sama gildir í raun um efnistöku nærri árfarvegi.  Ef áin nær í efnistökustaðinn sem gerist fyrr eða síðar verða áhrif þau sömu og að framan er lýst auk þess að farvegur árinnar breytist og sá gamli fer á þurrt.

 

Miklu skiptir í hvaða vatnsfalli framkvæmdir verða t.d. malartekja því ár eru mjög misjafnar hvað varðar vistgerð og lífmagn. Meginreglan á að vera sú að forðast malartekju í og við ár.  Vegna stöðugs framburðar áa í áranna rás er samt sem áður í sumum tilfellum mögulegt að taka efni úr áreyrum og aurkeilum sem hafa hlaðist upp, án þess að varanlegur skaði hljótist af fyrir lífríki.  Eins myndast gjarnan eyrasvæði neðan við brött gil.  Þá skiptir máli hvar í ánum er borið niður.  Þetta þarf að meta og útfæra í hverju tilviki fyrir sig.

 

Auk malartekju eiga sér stað aðrar framkvæmdir í ám og vötnum.  Þar þarf einnig að fara að með gát t.d. hvað varðar ræsa- og brúargerð (Guðmundur Ingi Guðbrandsson og fleiri 2005).

 

Lög og reglur

Helstu lög sem taka til efnistöku úr ám eru lög um lax- og silungsveiði (nr. 61, 2006), skipulags- og byggingarlög (nr. 73, 1997) og lög um náttúruvernd (nr. 44, 1999).

 

Í 27. grein skipulags- og byggingarlaga er fjallað um framkvæmdaleyfi vegna hvers kyns framkvæmda og efnistöku:

 

27.gr.Framkvæmdaleyfi.
[Afla skal framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi skv. IV. kafla.

Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skal gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð er grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.

Sá sem óskar framkvæmdaleyfis skal senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skal kveða á um í reglugerð.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir. Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.

Við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin er sú sem lýst er í matsskýrslu. Þá skal sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Sveitarstjórn getur bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar að svo miklu leyti sem aðrir sem veita leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra. Jafnframt er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins.

Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og niðurstaða álits Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum skulu birtar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis. Í ákvörðun skal tilgreina kæruheimildir og kærufresti.

 

Í lagatexta hér að ofan er vísað til náttúruverndarlaga nr. 44 frá 1999.  Þar er ef til vill ekki kveðið nógu skýrt á um árfarvegi og vatnsbotn sjá hér aftar.

 

Misbrestur er á því að eftir þessum ákvæðum sé farið og þó svo athugasemdir hafi komið frá Skipulagsstofnun og/eða öðrum aðilum, virðast sveitastjórnir geta virt þær að  vettugi. Viðkomandi sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi og er það leyfi endanlegt.

 

Í lögum um náttúruvernd segir í VI. kafla:

 

VI. kafli. Nám jarðefna.

45. gr. Gildissvið.

Ákvæði kafla þessa gilda um efnistöku í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og, eftir því sem við á, um efnistöku af eða úr hafsbotni í íslenskri landhelgi og efnahagslögsögu.
46. gr. Skipulag efnistökusvæða.

Um skipulag efnistökusvæða fer eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.

47. gr. Heimild til efnistöku.

Um leyfi til efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga fer eftir ákvæðum laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Iðnaðarráðherra skal þó leita umsagnar [Umhverfisstofnunar]1) áður en leyfi er veitt.

Öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. [Þar sem ekki liggur fyrir samþykkt aðalskipulag sem [Umhverfisstofnun]1) og viðkomandi náttúruverndarnefnd hefur gefið umsögn sína um, sbr. 33. gr., er óheimilt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrr en að fenginni umsögn framangreindra aðila.]2) Enn fremur gilda um efnistöku á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er eiganda eða umráðamanni eignarlands heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða [jarðmyndanir og vistkerfi]3) sem njóta verndar skv. 37. gr.

   1)L. 164/2002, 22. gr. 2)L. 140/2001, 8. gr. 3)L. 140/2001, 7. gr.

48. gr. Áætlun um efnistöku.

Áður en leyfi er veitt til náms jarðefna skv. 47. gr. skal liggja fyrir áætlun námuréttarhafa um væntanlega efnistöku þar sem m.a. skal gerð grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.

[Umhverfisstofnun]1) skal hafa eftirlit með efnistöku á landi, sbr. og b-lið 6. gr. og 2. og 3. mgr. 7. gr. Er stofnuninni heimilt að krefjast þess að námuréttarhafi leggi fram tryggingu sem stofnunin telur fullnægjandi fyrir áætluðum kostnaði við eftirlit og frágang efnistökusvæða.

   1)L. 164/2002, 22. gr.

 

Hér er enn hnykkt á framkvæmdaleyfi og hlutverki Umhverfisstofnunar í eftirliti.  Mjög hefur skort á það við efnistöku úr ám og áreyrum að eftir þessu sé farið.

 

Enn koma til sögunnar lög um lax- og silungsveiði sem eru yngstu lögin af þessum þrennum, en þar segir:

 

V. kafli. Um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn.

33. gr. Um heimild til mannvirkjagerðar í veiðivötnum.

Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Matvælastofnunar. Um byggingarleyfis- og framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir fer einnig samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og reglum settum samkvæmt þeim.

Með umsókn framkvæmdaraðila eða landeiganda til Matvælastofnunar um leyfi til framkvæmda við ár og vötn skulu fylgja álit viðkomandi veiðifélags þegar það á við og umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Leyfi Matvælastofnunar skal aflað áður en ráðist er í framkvæmd.

Ef sérstök ástæða þykir til getur Matvælastofnun krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Matvælastofnun getur í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná.

Kostnaður vegna nauðsynlegra líffræðilegra úttekta skal greiddur af þeim sem óskar eftir leyfi til framkvæmda.

 

Veiðivatn er í 3. grein laganna skilgreint sem “Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti vera í ef fiskur væri ræktaður þar”

   

Í þessum lögum sem eru sett síðar en hin, sem áður er vitnað til, virðist ljóst að Matvælastofnun (áður Landbúnaðarstofnun) þarf að gefa leyfi fyrir sérhverri framkvæmd við ár og vötn innan 100 m frá bakka veiðivatnsins.

Þessu til viðbótar eru lög um varnir gegn landbroti nr. 91/2002 þar sem við framkvæmdir virðist þurfa að taka lítið tillit til áhrifa á lífríki vatna. Einnig skal geta laga (nr.106/2000) um mat á umhverfisáhrifum en þar eru ákvæði um hvort efnistaka skuli fara í umhverfismat eða ekki og fer það eftir umfangi hennar.

 

Ekki virðist því skorta á heimildir Matvælastofnunar, sveitastjórna, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar til þess að láta efnistöku úr ám til sín taka.  En reyndin hefur oftlega orðið sú að hver bendir á annan og verktakar fara sínu fram með mislitlar heimildir til efnistökunnar.  Sýra þarf lög þannig að einn stjórnsýsluaðili hafi yfirumsjón með þessum málum og geti gripið inn í ef ekki er farið að lögum.

 

Umfang malartekju í ám

Lausleg könnun var gerð á umfangi malartekju síðustu 5 árin. Ætla má að farið hafi verið í yfir 80 vatnsföll og tekin þar möl, mismikið á hverjum stað.  Í um 60 %  tilfella var leitað tilVeiðimálastofnunar, sem er stærsti fagaðili á þessu sviði á landinu, áður en til framkvæmda kom.  Í öðrum tilfellum var leitað til stofnunarinnar eftir að malarnám hófst og í sumum tilfellum alls ekki.  Mest er malartekjan nærri stærri þéttbýlisstöðum og nærri stórum framkvæmdum.  Ástandið hefur engu að síður batnað og er mun oftar haft samráð um framkvæmdir en áður var.  Þessu til viðbótar er einnig um að ræða aðrar framkvæmdir í ám svo sem ræsagerð, brúargerð eða annað rask. 

 

Lokaorð

Umfang malartekju í ám, sem og aðrar framkvæmdir í eða við eru miklar.  Bætt og breytt viðhorf í umgegni við náttúruna er þörf.  Mikilvægt er að við gerð skipulags sé námasvæðum valin staður á þann hátt að neikvæð áhrif þeirra á vatnsföll séu sem minnst. Samkvæmt nýjum lögum þarf ný framkvæmdaleyfi fyrir allar eldri námur eftir þann 1. júlí næstkomandi (2008).   Mikilvægt er að vandlega sé farið yfir allar aðstæður áður en að slík leyfi eru endurnýjuð.

 

Heimildir og ítarefni

 

Davíð Egilson, Freysteinn Sigurðsson, Helgi Jóhannesson, Páll Sigurðsson, Sigurður Guðjónsson, Sigurður Már Einarsson og Stefán H. Sigfússon 1991. Fallvötn og landbrot. Rit gefið út af Landgræðslu ríkisins, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Vegagerð ríkisins ogVeiðimálastofnun. 40 bls.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Bjarni JónssonEik ElfarsdóttirKarl Bjarnason 2005.Áhrif brúa- og ræsagerðar á ferðir ferskvatnsfiska og búsvæði þeirra.  VeiðimálastofnunVMST-N/0503, skýrsla 101 bls.

 

Námur.  Efnistaka og frágangur.  2002. Rit gefið út af Embætti veiðimálastjóra, Hafrannsóknarstofnun, Iðnaðarráðuneyti, Landgræðslu ríkisins, Landsvirkjun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siglingastofnun Íslands, Umhverfisráðuneyti, Vegagerðinni ogVeiðimálastofnun.  75 bls.