Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum
2. febrúar 2011

Áminning um skil á veiðibókum og veiðiskýrslum

Veiðimálastofnun vinnur nú að árlegri úrvinnslu veiðibóka og er vonast til að heildarsamantekt á veiðitölum verði lokið í byrjun mars. Það er mikilvægt að allar veiðibækur berist til skráningar og að þeir sem skráningu annast og hafa ekki sent inn veiðibækur eru beðnir að gera það sem allra fyrst.

 

Bent skal á að senda má ljósrit af veiðibókum.

Skráning laxveiði á Íslandi er með því besta sem gerist hjá laxveiðiþjóðum og má þakka það góðri samvinnu Veiðimálastofnunar, veiðiréttareigenda og veiðimanna. Mikilvægt er að allir veiddir fiskar séu bókaðir ásamt umbeðnum upplýsingum svo sem dagsetningu, veiðistað, tegund, kyni, þyngd og lengd.

 

Með því að númera veiðistaði í veiðibókinni fæst yfirlit yfir fjölda veiddra fiska eftir veiðistöðum, en það getur auðveldað mat á fiskræktaraðgerðum, tilfærslum á veiði og sparað mikla vinnu og kostnað við arðskrármat. Æskilegt er að skráning veiðistaðanúmera sé yfirfarin af einhverjum sem vel þekkir til staðhátta. Skráning silungsveiði hefur batnað í seinni tíð en þar má enn bæta. Mikilvægt er að silungsveiði sé einstaklingsskráð í veiðibækur á sama hátt og gert er með laxveiði.

 

Þegar veiðibækur berast Veiðimálstofnun eru þær tölvuskráðar og unnið yfirlit yfir mælda þætti. Að því loknu eru gömlu veiðibækurnar ásamt yfirliti endursendar ásamt nýjum veiðibókum fyrir næsta veiðitímabil. Mikilvægt er að veiðibækur séu merktar veiðiánni og að nafn sendanda/viðtakanda fylgi með. Það sama gildir um ljósrit ef þau eru send.

 

Þessa frétt er að finna á vef Veiðimálastofnunar