Almennt um vatnableikju.
Íslenska bleikjan er mjög breytileg í lífsháttum og útliti.
Líkt og hjá urriðanum getur bleikja verið staðbundin eða að hún gangi til sjávar og dvelji þar hluta af lífsskeiði sínu.
Staðbundin bleikja dvelur allan sinn aldur í ferskvatni, hvort heldur er í straumvatni eða stöðuvatni. Eitt frægasta dæmið um þann fjölbreytileika sem finnst hjá bleikju er bleikjan í Þingvallavatni, en þar finnast í einu og sama vatninu 4 útlitsafbrigði bleikju, þ.e. dvergbleikja, murta, kuðungableikja og ránbleikja.
Bleikja er mjög útbreidd í ám og vötnum á Íslandi og í stöðuvötnum sem hvorki hafa í- né útrennsli, er bleikjan gjarnan einráð fisktegund. Í stöðuvötnum hrygnir bleikjan oftast á grynningum og alast seiðin fyrst í stað upp á grýttum svæðum næst ströndinni, en dreifa sér síðan um vatnið.
Ef aðstæður eru þannig að ár eða lækir renna í og úr stöðuvatni getur bleikjan gengið þangað til hrygningar, þar sem seiðin alast upp í fyrstu. Staðbundna bleikju er einnig oft að finna í ófrjósömum ám, en þar vex hún hægt og verður kynþroska smá.
Mjög er það misjafnt eftir vatnakerfum hve stórvaxin bleikjan verður. Í sumum vötnum þykir tveggja punda fiskur vænn, meðan fiskur undir þeirri stærð telst varla hirðandi í öðrum. Stærsta bleikja, sem vitað er til að veiðst hafi hérlendis var 22 pund og fékst í Skorradalsvatni.