Veiðitölur
Smelltu hér til að gerast áskrifandi að angling fréttum

22. ágúst 2019

Gat nú verið

Umfjöllun um úrkomuleysi, bágan vatnsbúskap, litlar heimtur á laxi, erfiðar aðstæður til veiða og fleira í þeim dúr hefur fengið sinn skerf í vikulegri samantekt okkar og ríflega það, í stuttu máli þá eru aðstæður víða erfiðar og það sést vel í veiðitölum þetta veiðitímabilið. 

 

En það er fleira sem getur haft neikvæð áhrif í för með sér og ógnað framtíð laxastofna umhverfis landið og þá er verið að vísa í að enn og aftur hefur komið gat á eldiskví á vestfjörðum sem hýsir gríðarlegt magn ef frjóum eldislaxi af norskum uppruna. Í þessari einu eldiskví, sem gat kom á, er áætlað að séu 179.000 laxar. Til að setja þetta í samhengi þá má geta þess að alls hafa veiðst innan við 16.000 laxar úr þeim tæplega 50 vatnakerfum sem við söfnum veiðitölum úr þetta veiðitímabilið.

 

22. ágúst 2019

Nýjar veiðitölur

Komnar eru nýjar veiðitölur á vef Landsambands Veiðifélaga. Samantektin er frá veiði í lok síðasta miðvikudags 21. ágúst.

 

Eftir veiði síðustu viku bættust tvær ár á lista þeirra sem hafa farið yfir 1000 laxa markið en það eru Ytri-Rangá sem komin er í samtals 1106 laxa og Miðfjarðará sem komin er með samtals 1091 laxa. Aðrar breytingar á listanum eru að Þverá/Kjarará færist upp um eitt sæti, fer úr 7. sæti í 6. sæti og fyrir vikið færist Blanda niður um eitt sæti.

 

Síðasta veiðivika skilaði víðast hvar minni veiði samanborið við vikuna á undan. Það á þó ekki við um öll vatnakerfi og má nefna Þverá/Kjarará, sem komin er í samtals 651 laxa. Síðasta veiðivikan skilaði 119 löxum og er það besta veiðivikan til þessa. Jafnframt á það við um Hofsá og Sunnudalsá, sem komin er í samtals 533 laxa, en þar skilaði síðasta veiðivika 73 löxum.

 

Efst á listanum okkar er sem fyrr Eystri-Rangá með samtals 2556 laxa en síðasta veiðivika skilaði 240 löxum. Hún eykur forskot sitt og nú munar 1389 löxum á henni og Selá í Vopnafirði sem er í 2. sæti með samtals 1167 laxa.

 

19. ágúst 2019

Gat kom á sjókví í Tálknafirði

Gat á nótarpoka sjókvíar hjá Arnarlaxi við Laugardal í Tálknafirði uppgötvaðist á föstudag. Gatið er um 7 sinnum 12 sentimetrar að stærð og er á tveggja metra dýpi. Enginn lax úr sjókvínni hefur veiðst, að því er fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun.
 

Gatið á kvínni uppgötvaðist við skoðun kafara og er búið að gera við það. Um 179.000 laxar voru í henni og er meðalþyngd þeirra 280 grömm. Atvikið er til skoðunar hjá Matvælastofnun og ætla eftirlitsmenn stofnunarinnar að skoða aðstæður hjá Arnarlaxi og fara yfir viðbrögð fyrirtækisins, að því er fram kemur í tilkynningunni. Nótarpokinn var heill við eftirlit 6. ágúst.

 

15. ágúst 2019