19. apríl 2014

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum ákvæðum laga um fiskeldi

Landssamband veiðifélaga sendi 6. apríl bréf til Atvinnuveganefndar með umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum ákvæðum laga um fiskeldi ofl., mál 319. Bréfið er birt hér fyrir neðan að hluta til en bréfið má nálgast í heild sinni, sjá neðst.

 

Landssamband veiðifélaga gerir alvarlegar athugasemdir við að frumvarp þetta var unnið án samráðs við landssambandið sem lögum samkvæmt gætir hagsmuna veiðifélaga. Landssambandið bendir á að í sjókvíaeldi við Ísland er notaður norskættaður lax sem er að mati Erfðanefndar landbúnaðarins framandi stofn í íslenskri náttúru. Villtum laxastofnum er því hætta búin af strokulöxum úr sjókvíum verði sú aukning í sjókvíaeldi sem ráðgerð er. Í greinargerð með frumvarpi þessu kemur fram að ósk um breytingar á lögum um fiskeldi var sett fram af hálfu Landssambands fiskeldisstöðva. Reynt er með frumvarpinu að mæta kröfum greinarinnar um að stytta og einfalda leyfisveitingar til að ala lax í sjókvíum. Ekki er að finna í greinargerð eða fylgiskjölum að skortur á rekstrarleyfum standi greininni fyrir þrifum enda eru í gildi rekstrarleyfi til að framleiða 20.335 tonn af laxi ár hvert, en ársframleiðslan 2013 nam aðeins 3000 tonnum.

13. apríl 2014

1. apríl 2014

200 eldislaxar sluppu úr kví

Laxar sluppu fyrir slysni úr sláturkví Fjarðalax í Patreksfirði í nóvember síðastliðnum. Um 200 fullvaxta laxar sluppu, áætla starfsmenn fyrirtækisins. Enginn lax veiddist aftur þótt laxanet væru sett í sjó samdægurs og látin liggja í tíu daga eftir atvikið.

Jónatan Þórðarson, eldisstjóri Fjarðalax, segir að atvikið hafi orðið í afar slæmu veðri 27. nóvember þegar sláturskipið Arnarfell HF-90 kom að kvíunum um morguninn. Áhöfnin byrjaði að festa skipið eins og venja var en átti í vandræðum með festingu sem slitnaði, með þeim afleiðingum að báturinn snerist og lenti stefnið þvert á kvínni með þeim afleiðingum að hún skemmdist og gat kom á pokann sem heldur fiskinum inni. „Þetta voru 200 fiskar sem sluppu. Við vitum það með mikilli nákvæmni því mjög lítið var eftir í kvínni,“ segir Jónatan.

Eldislax © Sumarliði óskarsson