25. apríl 2015

Vara við stór­felldu lax­eldi

For­ystu­manna veiðifé­laga í Húnaþingi vara „al­var­lega við stór­aukn­um áform­um um sjókvía­eldi á laxi á Vest­fjörðum og í Eyjaf­irði“. Þetta kem­ur fram í álykt­un frá hópn­um.

 

Sér­stak­lega leggst hóp­ur­inn gegn því að eldi á norsk­um eld­islaxi í sjókví­um verði leyft í Ísa­fjarðar­djúpi. „Eldi þar er komið al­veg að göngu­slóð Hún­vetnskra laxa og get­ur ógnað stór­um laxveiðiám.  Eld­islax af fram­andi stofn­um sem slepp­ur úr sjókví­um get­ur valdið óaft­ur­kræf­um um­hverf­is­spjöll­um og spillt líf­fræðileg­um og efna­hags­leg­um verðmæt­um,“ seg­ir í álykt­un fund­ar hóps­ins.

 

24. apríl 2015

Segir hrikalegt umhverfisslys í vændum

Akureyringur sem stundar líffræðitengt doktorsnám við Háskóla Íslands varar við því að umfangsmikið fyrirhugað sjókvíaeldi á norskum laxi í Eyjafirði, rétt norðan Hörgárósa, kunni að verða „hrikalegt umhverfisslys“ eins og hann orðar það í samskiptum við blaðið. Doktorsneminn, Elli Steinar, segir í pistli á heimasíðu sinni að fyrirhugað sé að setja í kvíar 2,4 milljónir laxaseiða af norskum stofni og ala í tvö og hálft ár. Af þessum 2,4 milljónum laxa megi reikna með að 2.400 sleppi árlega og syndi í nær- og fjærliggjandi ár. Til samanburðar var meðalveiðin á laxi í Fnjóská síðustu 10 árin tæpir 500 laxar.

Svæðið sem um ræðir er 3 km langt og 1,2 km breitt, eða um 3,5 ferkílómetrar, það eru rúm 5% af flatarmáli Eyjafjarðar frá Hjalteyri að ósi Eyjafjarðarár. Það er svæði á stærð við Pollinn frá Leirubrú og norður í slipp. Frá fyrirhugaðri staðsetningu eru aðeins 2 km að ósi Hörgár, 6 km að Fnjóská og 15 km að Eyjafjarðará.

Smellið á mynd til að stækka.

 

24. apríl 2015

Eldi á norskum eldislaxi við strendur landsins - bréf til ráðherra

Landssamband Stangaveiðifélaga hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyn, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svohljóðandi bréf, þann 20. apríl.

Landssamband stangaveiðifélaga (LS) vill með bréfi þessu koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi dreifingu norskra laxastofna hér á landi, meðal annars vegna fyrirhugaðs laxeldis í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði.

 

Þann 24. mars 2015 sendi Landssamband veiðifélaga þér bréf þar sem gerð er krafa um að lokað verði fyrir eldi á norskum eldislaxi í Eyjafirði og Ísafjarðardjúpi. Í bréfinu er vísað til samkomulags frá október 1988 sem stjórnvöld og allir hagsmunaaðilar stóðu að með undirritun sinni. Landssamband stangaveiðifélaga var aðili að þessu samkomulagi og tekur undir allar kröfur Landssambands veiðifélaga sem fram koma í bréfi þeirra. Landssamband stangaveiðifélaga krefst þess að samkomulagið verði virt og að Eyjafirði og Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir eldi á laxi af norskum uppruna.