10. febrúar 2016

Stórlaxagenið ráði miklu um samsetningu stofna

„Menn finna nú alltaf leið til að karpa um lax,“ segir Sigurður Guðjónsson, sérfræðingur hjá Veiðimálastofnun, aðspurður hvort endanlega sé búið að svara spurningunni um hið fræga stórlaxagen. Nýlega birtist grein í tímaritinu Nature um rannsókn sem þykir sýna með skýrari hætti en áður að gen ráði því hvort lax skili sér í ár sem smálax eða stórlax.
 

Sérfræðingar jafnt sem veiðimenn hafa lengi deilt um það hvort að svokallað stórlaxagen ráði þar för eða fyrst og fremst umhverfisaðstæður. „Þarna koma fram mjög sterkar vísbendingar í þessa átt, að gen ráði þar för,“ segir Sigurður en hann hefur lengi talað fyrir verndun stórlaxa á þeim forsendum og vísar í rannsóknina á vef Veiðimálastofnunar. „Frá árinu 2002 höfum við mælst til verndunar á stórlaxi. Það hefur farið stigvaxandi og nú er sú verndun kominn inn í nýtingaráætlun flestra veiðifélaga.“

 

7. febrúar 2016

Mikilvægt að varðveita erfðafræðilegan fjölbreytileika með verndun stórlaxa. Gen fundið sem stjórnar kynþroskaaldri laxa

Nýlega birtist frétt á heimasíðu NINA í Noregi þar sem skýrt er frá uppgötvun hóps vísindamanna. Greinin birtist fyrir skömmu í vísindaritinu Nature (tengill vísar á greinina). Þeir fundu gen sem gegnir veigamiklu hlutverki í að ákvarða hvort Atlantshafslax gengur til hrygningar sem smálax eða stórlax.  Umrætt gen skýrir 39% breytileikans í kynþroskaaldri lax og þar með stærð þeirra.   Eftir því sem lax dvelur lengur í sjó fram að kynþroska, því stærri verður hann þegar hann gengur til hrygningar.  Stórar hrygnur hrygna fleiri hrognum og stórir hængar eiga auðveldara með að tryggja sér aðgengi að hrygnum á hrygningarslóð.

2. febrúar 2016

Nýting kalkþörungasets í Miðfirði

Eftirfarandi er bréf Landssambands veiðifélaga sem sent var 18 janúar sl. til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál en þar eru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða nýtingu kalkþörungasets í Miðfirði. Athugið að hægt er að sækja viðkomandi bréf sem pdf-skjal eða word-skjal, sjá nánar hér fyrir neðan. 

 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar 9. desember  2015, að nýting kalkþörungasets í Miðfirði, 1.200 rúmmetrar á ári í 30 ár,  skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

 

Landssamband veiðifélaga kærir hér með þá ákvörðun Skipulagsstofnuar að nýting á 1.200 rúmmetrum á ári af kalkþörungaseti í Miðfirði skuli undanþegin umhverfismati og gerir þá kröfu að felld verði úr gildi sú ákvörðun Skipulagsstofnunar, dagsett 9. desember 2015, að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.