30. júlí 2015

Ágætu veiðimenn og aðrir lesendur.

Enn er veiðin í góðum gangi víðast hvar á landinu.  Úr gagnagrunnsánum okkar 25 var landað 5.207 löxum í liðinni viku.  Það telst vera mjög góð veiði á 7 dögum og ekki hefur hún orðið meiri síðan sumarið 2008.  Það ár voru tvær vikur með betri afla en þetta.  Árið eftir – 2009 – fór vikuaflinn tvisvar sinnum rétt yfir 5.000 fiska en náði þó ekki tölunni frá liðinni viku.  Síðan þá hefur veiði per viku aldrei náð að fylla fimmta þúsundið fyr en nú.

Af heildarveiðinni er það að segja að kvöldið þann 29. júlí var hún komin í 17.147 laxa.  Athugið að þarna er aðeins miðað við þær 25 ár sem eru inni í gagnagrunni LV.   Veiði yfir landið allt er mun hærri.  Ef við berum töluna saman við meðaltal síðustu 10 ára, sem er nálægt 14.610 fiskar, þá er þetta mun betra.  Ekki held ég samt að þetta muni skila okku neinu metsumri, en þó sýnist mér öruggt að það verði mjög gott.  Góð sárabót eftir ákaflega dapra veiði sumarið 2014.

 

 

23. júlí 2015

Ágætu veiðiáhugamenn.

Þó svo að þetta veiðisumar hafi byrjað á svipaðan hátt og sumarið sem leið þá hefur nú dregið verulega í sundur með þeim.  Í liðinni viku var landað 4.846 löxum úr gagnagrunnsánum okkar 25.  Þetta er ágætur afli og tíunda besta vikuveiði frá árinu 2006.  Heildarveiðin úr þessum 25 ám er komin í 11.940 laxa en meðaltal undanfarinna 10 ára er 10.642 fiskar.  Þetta eru ánægjulegar fréttir og það sem gerir þær enn betri er að nú sést mikið af laxi ganga í árnar vestanlands og í Húnaþingi.  Norðaustan- og Austanlands er þó minni fiskur á ferðinni ennþá, en slíkt er jú vanalegt og getur jafnað sig á næstunni.  Því geri ég ráð fyrir að von sé á góðri veiði áfram.  Athyglivert er hvað góð veiði er í Blöndu.  Hún er nú hæst yfir landið með 1.638 landaða laxa.  Þar hafa veiðst 645 fiskar í liðinni viku, sem jafngildir 6,6 löxum per stöng á dag.  Horfur eru á að langt sé í að lónið fyllist, þannig að búast má við góðri veiði þar langt fram eftir sumri.  Þó hefur granni hennar – Laxá á Ásum – skilað mun betri árangri, en þar er veiðin á dagstöngina rúmlega 17 laxar í liðinni viku.

16. júlí 2015

Ágætu lesendur.

Þá hefur fyrsta áin brotið 1000 laxa múrinn.   Úr Norðuránni eru komnir 1.068 fiska á land.  Blanda fylgir nokkuð fast á eftir með 993 laxa.  Af gagnagrunnsánum okkar 25 er það að frétta að heildar veiðitölur úr þeim eru nú 7.094 laxar, eftir 3.526 landaða fiska í liðinni viku.  Veiðin er greinilega að ná sér á strik.

Ef við berum þetta  saman við undanfarin ár þá er meðalveiðin úr ánum 25 nálægt 7.175 löxum síðan 2006.  Því má segja að veiðin núna sé órtúlega nærri pari.  Vonandi heldur veiðin áfram að batna þannig að tölurnar komist fljótlega upp fyrir meðaltalið.

 

 

9. júlí 2015

4. júlí 2015