30. mars 2015

NASA fékk tæki hjá Stjörnu-Odda

Íslenska sprotafyrirtækið Stjörnu-Oddi þróaði og hannaði mælitæki sem Geimvísindastofnun Bandaríkjanna notaði til að rannsaka stöðuvatn sem er undir íshellunni á Suðurheimskautinu. Niðurstöðurnar hafa vakið athygli því lifandi örverur fundust undir íshellunni.

 

Stjörnu-Oddi framleiðir mælitæki sem notuð eru við rannsóknir m.a. á villtum dýrum úti í náttúrunni eða neðansjávar. Tækin eru mjög smá og geta mælt t.d. seltu, hita og dýpi en líka sýnt stefnu, halla og tekið á móti staðsetningu. Þau hafa verið notuð í um 50 löndum t.d. til að merkja skjaldbökur, hákarla, túnfiska, krókódíla og lunda við Vestmannaeyjar svo nokkuð sé nefnt. 

www.star-oddi.com

30. mars 2015

Á að opna fiskveg milli stöðuvatna?

Í skoðun er að grafa fyrir fiskvegi milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns. Með því á að bæta fyrir áhrif byggingar Steingrímsstöðvar fyrir um 60 árum, en hún hafði áhrif á urriðann í Efra-Sogi og kemur í veg fyrir að fiskur eigi afturkvæmt úr Úlfljótsvatni upp í Þingvallavatn.

Loftmynd af Þingvallavatni og Úlfljótsvatni. Mynd Google Maps

 

27. mars 2015

Krafa Landssambands veiðifélaga að Eyjafirði og Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir eldi á norskum eldislaxi.

Landssamband veiðifélaga hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf, þann 24. mars, þar sem sett er fram sú krafa að Eyjarfirði og Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir eldi á norskum eldislaxi.

 

Hluta efnis er að finna hér en bréf í heild sinni ásamt meðfylgjandi gögnum er að finna í þessu pdf-skjali. 

 

"Um mitt ár 1988 skipaði þáverandi landbúnaðarráðherra nefnd til að setja reglur um dreifingu norskra laxastofna hér á landi. Nefndin skilaði áliti ásamt reglum í byrjun október 1988 sem stjórnvöld og allir hagsmunaraðilar samþykktu með undirritun sinni. Megin niðurstaðan var sú að eldi innfluttra laxastofna skyldi eingöngu heimilt í strandeldisstöðvum sem hefðu frárennsli beint í sjó. Óheimilt væri með öllu að ala norska eldislaxinn í sjókvíum við Ísland. Þannig var stefnt að því að ekki blandaðist erlent erfðaefni úr norskum eldisstofnum í villta laxastofna hér á landi.